Fiskneysla og viðhorf til fisks
Þrátt fyrir jákvæðu áhrif fiskneyslu hefur fiskneysla minnkað töluvert undanfarin ár. Einnig hefur komið fram að yngra fólk borðar sjaldnar fisk en fólk í eldri aldurshópum. Samkvæmt landskönnun Manneldisráðs á mataræði fullorðinna Íslendinga hefur komið í ljós að fiskneysla þeirra hefur einnig minnkað mikið á fáum árum. Meðalneyslutíðni samsvarar um rúmlega sex fiskmáltíðum á mánuði, en ungt fólk á aldrinum 15-19 ára borðar helmingi minna.
Árið 2006 var gerð viðamikil rannsókn á neysluvenjum Íslendinga á aldrinum 18-25 ára er varðar sjávarfang. Meginmarkmiðið var að rannsaka fiskneyslu ungs fólks á aldrinum 18-25 ára, hver viðhorf þeirra væru og hvaða þættir gætu verið ákvarðandi fyrir neyslu sjávarafurða. Í skýrslu sem birt var um niðurstöður rannsóknarinnar kom m.a. fram að nær allir virtust sammála um að það sé hollt að borða fisk (94%). Þá voru langflestir þeirrar skoðunar að bragð (91%) og ferskleiki (84%) skiptu hvað mestu máli við innkaup á fiski, en nokkuð færri nefndu hollustu (77%).
Þar sem almennt er meiri áhersla lögð á bragð og ferskleika við innkaup á fiski en hollustu, má ætla að það sé fólki mikilvægt að kunna að greina ferskleika fisks. Þessari þekkingu virðist þó vera töluvert ábótavant meðal ungs fólks, en yfir 40% svarenda töldu að þeir kynnu ekki að greina ferskleika fisks. Ennfremur kom fram að yfir 30% töldu að lykt af fiski væri vond. Líklega verður að telja að þessi viðhorf og minnkandi þekking á fiskafurðum meðal almennings skili sér í minnkandi neyslu á fiski.