Skip to content

Hollusta fisks

Langlífi Íslendinga hefur löngum verið tengt mikilli fiskneyslu landsmanna. Rannsóknir hafa sýnt að heilsufarslegur ávinningur er af því að borða fisk a.m.k. einu sinni til tvisvar í viku. Þrátt fyrir öll þessi jákvæðu áhrif hefur fiskneysla minnkað töluvert undanfarin ár.

Fiskur inniheldur mörg lífsnauðsynleg næringarefni, snefilefni og vítamín. Fiskur er talinn mjög holl og góð fæða, meðal annars er hann góð uppspretta hágæðapróteina þar sem fiskprótein innihalda fjölmargar lífsnauðsynlegar amínósýrur sem eru í hagstæðum hlutföllum hvað varðar þarfir mannslíkamans. Í fiskfitu er að finna langar ómettaðar fitusýrur (Ómega-3) sem ekki er að finna í jurtaolíum. Rannsóknir sýna að fisk- og lýsisneysla hafa jákvæð áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma og fleiri sjúkdóma. Niðurstöður frá Rannsóknastofu í næringarfræði úr verkefninu SEAFOODplus og 6. rammaáætlun Evrópusambandsins, sem fjallar um neyslu sjávarfangs og heilsu ungra fjölskyldna, sýna æskileg áhrif á heilsuna bæði af fiskilípíðum og próteinum. Niðurstöðurnar eru nýjar og mikilvægar hvað varðar próteinin en þau auðvelda þyngdartap hjá ungu fullorðnu fólki sem þarf að létta sig, lækka ákveðnar gerðir blóðfitu og auka andoxunarvirkni. Fiskur er næringarrík fæða sem er t.d. auðugur af snefilefnunum selen og joði. Joð er m.a. mikilvægt efni fyrir starfsemi skjaldkirtils. Í feitum fiski er einnig að finna töluvert af D-vítamíni sem gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum í líkamanum í sambandi við nýtingu á kalki.