Skip to content

CBC kæling (undirkæling) og skyld tækni

CBC (Combined Blast and Contact) kæling er tækni sem þróuð var af  fyrirtækinu Skaginn hf. Hiti er dreginn úr flökunum bæði með leiðni gegnum kælt teflonhúðað álfæriband og með varmaflutningi þar sem köldu lofti er á sama tíma blásið yfir flökin. Vökvakæling er hluti af CBC kælingunni. Þegar vökvakæling er notuð sem hluti af CBC kælingunni forkælir hún flökin og eykur saltinnihald þeirra lítillega sem lækkar þannig frostmark þeirra.

Hægt er að nota vökvakælingu til kælingar á flökum  fyrir frekari vinnslu og pökkun. Mikilvægt er að lágmarka örverufjölda í kælivökvanum með endurnýjun hans og eftirlit með hitastigi til að stuðla að lengra geymsluþoli flakanna.  Annars er hætta á að sérhæfðar skemmdarörverur (aðallega Photobacterium phosphoreum, pseudomonads og H2S-myndandi gerlar) geti leitt til mengunar flaka í kælivökvanum og náð að fjölga sér, sérstaklega ef hitastig hækkar.

Áhrif CBC kælingar geta hins vegar viðhaldið kælihitastigi flaka betur í samanburði við flök sem hafa eingöngu undirgengist vökvakælingu. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að lengja geymsluþol flaka sem náð hafa að hitna um 25% með vökvakælingu í samanburði við sambærileg ómeðhöndluð flök með 6 daga geymsluþol. Með CBC kælingu er hægt að lengja geymsluþol flaka um 100% miðað við sambærileg ómeðhöndluð flök með 6 daga geymsluþol, sjá nánar hér. CBC kæling getur leitt til lengra ferskleikatímabils og lengra geymsluþols á þorskflökum, sjá nánar hérhér og hér.  Þessi aðferð gæti því verið hentug við útflutning á ferskum unnum flökum með skipum þar sem hægt er að viðhalda ferskleika og tryggja nægjanlegt geymsluþol án þess að rjúfa kælikeðjuna. Auk þess hafa örverurannsóknir á sérhæfðum skemmdarörverum sýnt fram á hægari vöxt slíkra örvera í CBC kældum flökum.

Myndin hér fyrir neðan sýnir hitaferil 5 mismunandi flaka sem fara í gegnum CBC kælinguna. Sjá má að hitastig flakanna lækkaði um 2°C á 10 mín í vökvakælinum. Hröð kæling flakanna í CBC kælingunni lækkar hitastigið um 3.5°C á 7 mín niður að hitastigi þar sem flestar fasabreytingar eiga sér stað. Eftir að flökin hafa gengið í gegnum CBC kælinguna helst hitastig stöðugt, jafnvel við stutta geymslu í opnum kassa við 14°C. Ástæður þessa eru að mestum hluta vegna þess að kæliorka sem flökin urðu fyrir við CBC kælinguna var á formi fasabreytinga þannig að hitastigið helst stöðugt þar til mestallur ísinn er bráðnaður.

Frekari upplýsingar um CBC má einnig finna hér.