Skip to content

Hitastig við geymslu fisks


Hitastig hefur gífurlega mikil áhrif á gæði og geymsluþol matvæla. Lágt hitastig er mikilvægur þáttur í að viðhalda gæðum fisks eins lengi og unnt er. Jafnvel minnstu frávik frá réttu hitastigi getur skilað sér í mun styttra geymsluþoli. Það er mikilvægt að ferskur fiskur sé alltaf geymdur sem næst frostmarki þar til hans er neytt. Hækkun um sérhverja gráðu frá frostmarki hraðar vexti gerla og styttir þar með geymsluþol fisksins.  Til dæmis er geymsluþol þorskflaka við 0°C 10-12 dagar, 5-6 dagar við 4-5°C en aðeins 2-3 dagar við 10°C. 

Best er að frysta fisk hratt við mjög lágt hitastig (< -20°C).  Frysting í frystihólfi ísskáps er hæg og hefur neikvæð áhrif á gæði fisksins eins og áferð, en ætti að vera í lagi fyrir skammtíma frystigeymslu. Eftir því sem fiskurinn er geymdur lengur frystur verður hann þurrari og seigari auk þess sem frystigeymslubragð- og lykt myndast. Einnig getur yfirborð fisksins þornað sem kemur fram sem hvítir blettir eða frostskemmdir. 

Þegar fiskur er þíddur er best að gera það hægt við lágt hitastig, t.d. með því að láta hann þiðna í ísskáp yfir nótt. Eftir þíðingu þarf að geyma fiskinn við eins lágt hitastig og unnt er. Hversu lengi hann geymist er háð því hversu ferskur hann var fyrir frystingu.