Skip to content

Hreinlæti við meðhöndlun fisks

Hreinlæti er mikilvægt til að koma í veg fyrir að sýklar berist í matvæli.

Handþvottur: Það mikilvægasta er handþvottur, sérstaklega eftir salernisferðir.  Margir gerlar lifa á húð og í hári manna en langmestur fjöldi er í saur.  Sumir þessara gerla geta valdið matareitrun ef þeir komast í matvæli og ná að fjölga sér þar.  Því er mikilvægt að hendur séu hreinar þegar matvæli eru meðhöndluð.

Aðskilja hrátt kjöt og fisk frá öðrum matvælum: Hrátt kjöt og fiskur geta innihaldið mikinn fjölda gerla sem drepast við eldun.  Því þarf að tryggja að safi frá hráu kjöti og fiski berist ekki í eldaðan mat eða mat sem borðaður er hrár (t.d. grænmeti). 

Þrif á áhöldum og borðflötum:  Mikilvægt er að öll áhöld og skurðarfletir séu hreinir við meðhöndlun matvæla.  Sérstaklega þarf að gæta þess að þrífa þessa hluti mjög vel með sápu eftir meðhöndlun á hráu kjöti eða fiski til að koma í veg fyrir að gerlar berist í önnur matvæli.