Skip to content

Áhrif árstíma á gæði

Veiðitími hefur áhrif á gæði og nýtingu vegna árstíðabundinna sveiflna í ástandi og efnasamsetningu fisks. Við hrygningu er los í fiski meira og vatnsinnihald í hámarki. Næringarástand fisksins getur einnig verið mismunandi eftir veiðisvæðum.

Gæði fisks eru breytileg eftir árstímum, til dæmis sökum hitastigs, kynþroska og fæðuframboðs, eins og sjá má hér.   

Hitastig sjávar hefur til að mynda áhrif á hve fljótt er hægt að koma hitastigi fiskholdsins niður í kjörhitastig. Kynþroski hefur meðal annars áhrif á áferð, efnasamsetningu og holdafar þar sem til dæmis nýlega hrygndur fiskur er oft á tíðum mjög horaður. Fæðuframboð getur bæði verið of lítið og of mikið þar sem fiskur sem hefur fitnað mikið á stuttum tíma getur verið mjög laus í sér. Veðurfar hefur áhrif á los og mar þar sem „óþarfa hnjask“ eykst í vondum veðrum. Einnig getur magn orma, loss, mars og annarra gæðaþátta verið misjafnt milli árstíma eins og sjá má hér.  Það getur verið mjög erfitt og oft á tíðum ómögulegt fyrir útgerðir að bregðast við þessum náttúrulegu áhrifaþáttum, en allir sem koma að virðiskeðjunni þurfa þó að vera meðvitaðir um það að árstími getur haft áhrif á gæði.  Í sumum tilfellum er þó hægt að bregðast við þessum breytileika, til dæmis með því að auka kælingu yfir sumartímann (þ.e.a.s. betri forkæling, meiri ís, karahettur o.s.frv.) eins og sjá má á mynd hér fyrir neðan.

Sjávarhiti hefur áhrif á hve mikið af ís þarf til kælingar afla. Því er ísþörf mismunandi eftir árstíma og veiðisvæði. Algengt sjávarhitastig við suðurströndina á sumrin er 8–12°C og þá þarf allt að 15 kg af ís (um það bil 3 fötur) til að kæla hver 100 kg af fiski niður í 0°C. Sé notaður krapi, þ.e.a.s. ís og sjó blandað saman, þarf 16 kg af ís og 15 lítra af sjó til að ná sama árangri. Þar að auki þarf ís til að viðhalda kælingunni.

Hér má sjá jöfnur sem nota má til þes að reikna út hversu mikinn ís þarf til þess að kæla fiskinn niður í 0°C og til að viðhalda 0°C.