Flutningar með bílum
Lofthiti í flutningsrými bíla sem flytja ferskar fiskafurðir ætti að vera milli -2 og 0°C og aldrei yfir 4°C. Við ofurkældar aðstæður (-2°C til 0°C) geymist fiskurinn best en hvernig tekst að viðhalda þessu hitastigi í afurð er m.a. háð hitaeinangrun pakkninga og flutningstíma.
Mikilvægt er að nota vélknúna kæligáma við flutning. Í flestum flutningum þarf varmaflæðistuðull (K eða U) að vera jafn eða lægri en en 0.4 W/m2/K . Sé flutningstíminn hins vegar aðeins nokkrar klst. ætti að duga að nota einangraða kæligáma (K < 0.7 W/m2/K), sérstaklega ef umhverfishiti er nálægt 0°C.
- Kannið hitastig afurða fyrir lestun
- Leyfið fríu kældu lofti að flæða umhverfis farminn
- Hringblásið kældu lofti frá kælivélum um allt kælirými bílsins
- Fylgist vel með lofthitastigi í kælirýminu og sérstaklega á þeim stöðum sem eru fjærst kælivélum. Þar sem kælivélar eru yfirleitt staðsettar fremst í bílnum er mest hætta á hitnun aftast og upp við loft
Varðandi gildandi reglur um flutning kældra og frosinna afurða sem og um flutningstæki er vísað á heimasíðu Matvælastofnunar (MAST).