Smásala og verslanir
Allir hlekkir virðiskeðjunnar skipta máli ef tryggja á hámarks gæði alla leið á disk neytandans og frá því eru smásalar, verslanir, mötuneyti, matsölustaðir og neytendur ekki undanskyldir.
Viðhalda þarf órofinni kælikeðju og fylgjast með merkingum um síðasta neysludag. Ástæða er þó til að árétta að gæðin glatast í línulegu falli af tíma og því skiptir aldurinn verulegu máli þ.e.a.s. fiskur sem er að koma á síðasta söludag er ekki sama gæðavara og nýr fiskur. Þau atriði sem þessir síðustu hlekkir virðiskeðjunnar hafa stjórn á eru aðallega tími og hitastig. Hér gildir það sama og annarstaðar í kælikeðjunni um að viðhalda lágu hitastigi.
Forsvarsmenn verslana bera ábyrgð á því að viðhalda lágu hitastigi í vörunni. Samkvæmt reglugerðum frá Matvælastofnun (Reglugerð 104/2010, fylgiskjal I, viðauki 1, VIII þáttur, VII. kafli) gildir að matvæli sem geyma á í kæli eða framreiða köld, skuli kæla svo fljótt sem auðið er og geyma við 0-4°C, þannig að vöruhitastig sé á bilinu 0-4°C. Hitastig frystra matvæla skal vera stöðugt -18°C eða lægra.
Ekki er æskilegt að fiskur í fiskborðum liggi í bræðsluvatni og því þarf að tryggja að sá ís sem bráðnar safnist ekki fyrir svo fiskurinn skemmist síður.
Þegar uppþíddar fiskafurðir eru settar beint á markað skal nafn vöru koma skýrt fram á umbúðum og að um uppþídda vöru sé að ræða þar sem hætta er á að uppþíddri afurð verði ruglað saman við ferska afurð.
Um sjávarafurðir gilda lög nr. 93/1995 “um matvæli” auk sérlaga nr. 55/1998 “um sjávarafurðir” og reglugerðir sem settar hafa verið með stoð í þeim. Tilgangur laga þessara er að tryggja neytendum að íslenskar sjávarafurðir séu heilnæmar, standist settar kröfur um öryggi matvæla, séu unnar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður og að merkingar og upplýsingar um þær séu fullnægjandi. Íslenskar reglur varðandi kröfur til sjávarafurða eru hinar sömu og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) að Íslandi meðtöldu.