Vinnsla
Mælt er með að viðhalda lágu og stöðugu hitastigi í kæli fyrir vinnslu. Hitastig í flökum og fiskstykkjum sem selja á fersk eða frosin má ekki fara yfir 4°C í vinnslurásinni, sjá nánar á eftirlitshandbækur Matvælastofunar.
Hægt er að nota vökvakælingu til forkælingar en forðast þarf krossmengun, t.d. með stuttum kælitíma, hringkeyrslu á kælivökva og með því að endurnýja kælivökvann reglulega. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að lengja geymsluþol flaka sem náð hafa að hitna um 25% með vökvakælingu og þannig lengja geymsluþol flakanna um 6 daga í samanburði við sambærileg ómeðhöndluð flök, sjá nánar hér.
Mælt er með svokallaðri CBC (Combined Blast and Contact) kælingu en sýnt hefur verið fram á að með slíkri kælingu er hægt að lengja geymsluþol flaka í 12 daga miðað við sambærileg ómeðhöndluð flök með 6 daga geymsluþol, sjá nánar hér, hér og hér.
Biðtími við vinnsluna á að vera sem stystur. Sjáið til þess að vinnslulínan sé rýmd þegar koma vinnslustopp og að engir flöskuhálsar séu til staðar sem geta tafið vinnsluna.
Vatn sem notað er við vinnsluna ætti að vera kælt niður í 1-2°C sé það mögulegt.