Mikilvægi hitastigs í flutningi
Rannsóknir hafa sýnt að hitastig í sjóflutningum er mun stöðugra en í flugflutningum. Geymsluþol vöru er mjög háð hitastigi í flutningi og því er mikilvægt að vera meðvitaður um hvernig hitaferlar í flutningi eru, sérstaklega í lengri flutningum, t.d. á erlenda markaði.
Útflutningur ferskra flaka frá Íslandi hefur aukist frá 5-10 þúsund tonnum í kringum 1990 í 15-25 þúsund tonn eftir 2003. Mest hefur verið flutt með flugi, en skipaflutningur hefur farið vaxandi.
Algengt er að útflutningur frá íslenskum framleiðendum til kaupanda í Evrópu sé um 5-7 dagar fyrir sjóflutningskeðjur en 1-2 dagar ef flökin eru flutt með flugi.
Mynd 1 sýnir hitaferil í flugflutningi frá framleiðanda á Íslandi til kaupanda í mið-Evrópu. Umhverfishitastig sveiflaðist mjög mestan hluta flutningskeðjunnar og vöruhiti var um 4°C við koma til kaupanda.
Mynd 2 sýnir hitaferil í sjóflutningi frá framleiðanda á Íslandi til kaupanda í mið-Evrópu. Umhverfishitastig var stöðugt mestan hluta flutningskeðjunnar og vöruhiti var um 1°C við komu til kaupanda.
Þessar myndir sýna að það var fjórum dögum “lengra” með skipaflutningi miðað við flugflutning á sama markað. Myndirnar sýna einnig að vöruhitastig var 3°C hærra við afhendingu í tilfelli flugfisksins. Báðir þessir þættir hafa áhrif á geymsluþol frá afhendingu.
Rannsóknir þar sem stuðst var við hitaferla í raunverulegum skipa- og flugflutningum til að kanna geymsluþol þorskflaka sýna að með því að geyma flökin við stöðugt hitastig við -1°C, næst 4-6 daga lengra geymsluþol samanborið við geymsluaðstæður sem herma eftir flugflutningum með fremur vægum hitasveiflum.
Af þessu leiðir, að lágt og stöðugt hitastig í skipaflutningi bætir upp þann langa tíma sem flutningurinn tekur hvað geymsluþol varðar frá afhendingu samanborið við flug.
Frekari upplýsingar varðandi kælingu fyrir flutning má finna hér, hér og hér.